Bátsferð í Grímsey á Steingrímsfirði

Grímsey er stærsta eyjan á Ströndum og liggur úti fyrir Drangsnesi í mynni Steingrímsfjarðar. Mikið fuglalíf er í Grímsey og má þar helst nefna lunda en ríflega 1% íslenska stofnsins verpur í eynni (23.250 pör). Meðal annarra varpfugla má nefna fýl, ritu, æður, toppskarf og álku og er eyjan á náttúruminjaskrá og IBA-skrá.

Boðið er upp á reglulegar náttúruskoðunarferðir út í Grímsey með leiðsögumanni. Báturinn Sundhani ST3 er notaður fyrir ferðina og um borð er góð aðstaða sem gerir þetta að ógleymanlegri upplifun. Bátsferðirnar hefjast 15. júní og standa fram í miðjan ágúst eða eins og veður leyfir.