Hlaupaferð Aðalvík Látrar - Straumnesfjall - Látrar - Hesteyri

Lagt er af stað kl.09:00 með bátsferð í Látra í Aðalvík. Bátsferðin tekur rúma klukkustund og hlaupurum er skutlað í land á zodiac tuðru. Þegar hópurinn hefur stillt sig saman, hefst ferðin á því að hlaupa upp Straumnesfjallið. Hækkunin er um 460m. Uppi á fjallinu eru stríðsminjar – bandaríski herinn reisti þar ratsjárstöð í Kaldastríðinu, og standa mörg þessara húsa enn uppi. Við fáum vonandi frábært útsýni af toppi fjallsins, útsýni yfir Rekavík bak Látur, Öldudalinn og Fljótavík. Farin er sama leið aftur niður af fjallinu og er haldið niður að Látrum, þar sem leiðin liggur yfir melana í átt að Stakkadalsvatni. Vaðið er yfir vatnið þar sem mestu grynningarnar eru. Þegar við göngum/skokkum rösklega inn Stakkadalinn er upplagt að taka nestispásu áður en við vinnum okkur upp Stakkadalsfjall sem er í 260m yfir sjávarmáli. Gengið/skokkað upp Hesteyrarskarðið á milli tveggja fjalla, Búrfells og Kagrafells og niður Hesteyrardalinn, þar sem við sjáum svo glitta í læknisbústaðinn. Eftir góða slökun á Hesteyri, er siglt til baka til Ísafjarðar.

Athugið! Þessi hlaupaleið telur 33 km, ferskt rennandi vatn er á leiðinni, en ekki fyrr en farið er upp Hesteyrarskarðið. Æskilegt er að hlauparar séu með nægilega orku meðferðis og að hlauparar sé í góðu formi til þess að eiga við mismunandi hækkun á leiðinni.  Aldurstakmark er 18 ára.